Sendiherra

 Frá heimsókn indversku sendiherrahjónanna. Frá vinstri: Ómar Bogason, Adolf Guðmundsson, sendiherrahjónin og Þóra Bergný Guðmundsdóttir.

                Í síðustu viku kom indverski sendiherrann, T Armstrong Changsan, í heimsókn til Seyðisfjarðar ásamt eiginkonu sinni. Á Seyðisfirði hittu sendiherrahjónin Þóru Bergnýju Guðmundsdóttur sem rekur farfuglaheimili á staðnum auk þess að reka hótel á Indlandi. Þóra dvelur á Seyðisfirði yfir sumartímann en á Indlandi á öðrum árstímum. Sendiherrann óskaði eftir því að fá að skoða fiskvinnslu á staðnum og var að sjálfsögðu brugðist vel við því og hann boðinn velkominn í heimsókn í frystihús Síldarvinnslunnar. Í frystihúsinu tóku Ómar Bogason og Adolf Guðmundsson á móti sendiherrahjónunum og fræddu þau um íslenskan sjávarútveg ásamt því að hjónin fylgdust með vinnslustarfseminni. Sendiherrann reyndist vera afar áhugasamur um fiskveiðar og fiskvinnslu og spurði margs. Lýsti hann því yfir að hann væri afar ánægður með heimsóknina og taldi hana mjög lærdómsríka.