Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag. Aflinn er 110 tonn og er uppistaðan þorskur. Að sögn Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra er um að ræða þokkalegan fisk. „Við byrjuðum og enduðum túrinn á Tangaflakinu, er þar var heldur lítið að hafa. Megnið af aflanum fékkst á Gerpisflaki og reyndar fórum við einnig í Litladýpið. Mér finnst vera heldur minna af fiski hérna fyrir austan en verið hefur síðustu ár. Ef einhvers staðar finnst fiskur er þar óðar kominn fjöldi skipa. Aftur á móti virðist vera mikið af síld á miðunum hérna og hún er hreint allsstaðar,“ segir Rúnar.
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða annað kvöld.
Bergey VE landaði fullfermi í Neskaupstað í gær og var aflinn mest þorskur. Heimasíðan ræddi í morgun við Ragnar Waage Pálmason, skipstjóra í veiðiferðinni, þar sem skipið var að veiðum í Norðfjarðardýpi í blíðuveðri. „Það gekk vel að veiða í síðasta túr en aflann fengum við mest í Litladýpi og á Grunnfætinum. Það er áberandi hve mikið er af síld fyrir austan landið,“ segir Ragnar.
Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Aflinn var þorskur, ufsi og karfi. Egill Guðni Guðnason, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, segir að túrinn hafi verið nokkuð sérstakur. „Við hófum veiðar fyrir austan eftir löndun í Neskaupstað og fengum þorsk og örlítið af ýsu á Skrúðsgrunni og Fætinum. Síðan kom upp grunur um covid-smit um borð og þá var haldið til Eyja en þangað var 30 tíma sigling. Þegar til Eyja var komið var strax tekið sýni úr viðkomandi og flaug Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri með það á Selfoss þar sem Arnar Richardsson rekstrarstjóri útgerðarinnar tók við því og kom því til Reykjavíkur. Þetta þýddi að niðurstaða var fengin eftir um það bil 8 tíma og reyndist ekki um covid-smit að ræða. Strax og niðurstaðan lá fyrir var haldið til veiða á ný og lögð áhersla á ufsa- og karfaveiðar í Háfadýpinu og skipið fyllt,“ segir Egill Guðni.