Bergey

Bergey VE hefur fiskað vel það sem af er marsmánuði. Ljósm. Björn Ingason

                Ísfisktogararnir hafa verið að fiska vel að undanförnu. Vestmannaeyjaskipin Bergey og Vestmannaey fara í stuttar veiðiferðir og landa síðan fullfermi. Jafnvel hefur verið gert hlé á veiðum annað veifið. Bæði skipin héldu til veiða sl. föstudag og lönduðu síðan fullfermi á sunnudag. Lagt var úr höfn á ný á sunnudagskvöld og er ráðgert að þau landi bæði í dag og verður þá Vestmannaey búin að landa tæpum 500 tonnum og Bergey rúmlega 400 tonnum það sem af er marsmánuði. Í yfirstandandi veiðiferð er lögð áhersla á að veiða þykkvalúru og skarkola. Skipin hafa fiskað við Vestmannaeyjar en síðustu tvo eða þrjá  dagana hefur verið leiðinda austanátt og þau voru því að veiðum út af Garðskaga.

                Það er dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn ehf., sem gerir Vestmannaey og Bergey út og segir Arnar Richardsson rekstrarstjóri að afla skipanna sé ráðstafað með svipuðum hætti og áður. Arnar segir að tíðarfarið hafi loksins batnað frá því sem var og það hafi eðlilega mikil áhrif á útgerðina.

                Gullver NS frá Seyðisfirði landaði í fyrradag 106 tonnum af blönduðum afla í heimahöfn. Veiðar hjá skipinu hafa gengið mjög vel að undanförnu en það hefur veitt á hefðbundnum togaramiðum fyrir austan. Afli Gullvers er unninn í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði og einnig hjá ÚA á Akureyri og Samherja á Dalvík. Hluti aflans er einnig sendur erlendis með Norrænu.