Ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu allir nú í byrjun vikunnar. Gullver landaði rúmlega 100 tonnum á Seyðisfirði í gær. Mestur hluti aflans var þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að veðrið í túrnum hefði verið misjafnt. „Fyrstu tvo dagana var bölvuð bræla en eftir það gekk á ýmsu – það var ýmist bræla eða þokkalegt veður. Þegar veðrið var verst voru allt upp í 18 – 20 metrar. Við byrjuðum veiðar á Tangaflakinu, síðan var haldið á Gerpisflak, þá voru tekin nokkur hol í Berufjarðarálnum í leit að karfa og endað á Hvalbaksgrunni en þar veiddum við í Bæli karlsins. Við höldum til veiða á ný á morgun,“ segir Þórhallur.
Vestmannaey landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir að vel hafi gengið að veiða en leiðinlegt veður hafi verið allan tímann. „Við vorum einungis tæpa þrjá sólarhringa á veiðum þannig að það er varla hægt að kvarta. Aflinn fékkst að mestu austur á grunnum – á Öræfagrunni, Ingólfshöfða og á Skeiðarárdýpinu. Það var haldið til veiða strax eftir löndun og nú erum við að leita að karfa,“ segir Birgir Þór.
Bergur landaði fullfermi í Eyjum í morgun. Ragnar Waage Pálmason skipstjóri segir að aflinn hafi verið blandaður. „Við hófum veiðar á Öræfagrunni og síðan var veitt á Skeiðarárdýpinu og Ingólfshöfða. Við restuðum svo í Reynisdýpinu. Það gekk þokkalega að veiða en megnið af túrnum var norðaustan bræla og haugasjór. Síðasti sólarhringurinn var skástur veðurfarslega,“ segir Ragnar.
Bergur heldur á ný til veiða á fimmtudagskvöld.