Polar Amaroq að loðnuveiðum í ísnum. Ljósm. Ómar Dennis AtlasonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi að aflokinni erfiðri veiðiferð í grænlensku lögsögunni. Aflinn í túrnum var 270 tonn af loðnu og þar af voru 160 tonn fryst. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að veiðiferðin hefði gengið heldur erfiðlega. „Ísinn hrakti okkur út úr grænlensku lögsögunni. Hinar suðlægu áttir að undanförnu hafa gert okkur kleift að veiða þar en nú eru vindáttir ekki nægilega hagstæðar og þá rekur ís yfir svæðið. Við urðum varir við loðnu í kantinum norðan við Halann inn í íslensku lögsögunni en þar má ekki trolla. Þarna virtist vera töluverð loðna. Þegar síðan skall á vitlaust veður var ákveðið að halda til lands og að skipið færi í slipp. Við höldum til Hafnarfjarðar í kvöld og þar verður skipið væntanlega í slipp fram í miðja næstu viku. Að því loknu er ráðgert að halda aftur til loðnuveiða þarna norðurfrá og freista gæfunnar.“

Fyrir þessa veiðiferð hafði Polar Amaroq farið í tvo loðnutúra í grænlensku lögsöguna. Hann landaði 1300 tonnum hinn 13. nóvember og  2000 tonnum hinn 21. nóvember.