Margrét EA er á leiðinni til Neskaupstaðar með 860 tonn af íslenskri sumargotssíld og er gert ráð fyrir að skipið komi til hafnar í fyrramálið. Síldin fékkst í fjórum holum utarlega í Jökuldýpinu um 80-90 mílur vestur úr Reykjanesi. Mun aflinn verða skoðaður þegar í land verður komið og kannað hvort hann er hæfur til manneldisvinnslu. Heimasíðan ræddi við Birki Hreinsson skipstjóra í morgun þar sem skipið var statt í brælu fyrir austan Vestmannaeyjar. „Við fengum 500 tonna hol seinni partinn í gær eftir að hafa togað í eina sex tíma. Áður höfðum við fengið tvö rúmlega 140 tonna hol og eitt 60 tonna. Við höfum séð mikið lóð á þessum slóðum en það er ekki allt síld, það virðist einnig vera um átu að ræða. Stundum reyndar sjáum við ekki neitt eins og í fyrradag. Við höfum nánast ekkert fengið á nóttunni og allur aflinn fékkst yfir daginn. Samkvæmt okkar skoðun er sáralítil sýking í þessari síld. Við urðum varir við sýkingu í örfáum síldum í fyrsta holi en síðan hefur ekkert borið á henni. Til dæmis virtist ekki vera um neina sýkingu að ræða í stóra holinu. Þetta varðandi sýkinguna kemur betur í ljós þegar í land verður komið og byrjað verður að skoða síldina ítarlega,“ segir Birkir.
Beitir NK liggur í Reykjavík og mun halda til síldveiða nk. mánudag.