Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er tekið á móti íslenskri sumargotssíld frá þremur skipum: Beiti NK, Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK. Síldin er ýmist heilfryst eða flökuð og er unnið úr um 700 tonnum á sólarhring. Lokið var við að landa 1000 tonnum úr Beiti í gær og Bjarni Ólafsson mun koma með 550 tonn í fyrramálið. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé mjög gott hráefni til vinnslu og öll starfsemi í fiskiðjuverinu gangi vel. „Nú er hins vegar svo komið að vinnslan hjá okkur er ekki samfelld. Það er langt að sækja síldina vestur fyrir land og veður hefur eðlilega mikil áhrif. Nú spáir til dæmis brælu og við gætum þurft að bíða töluvert eftir næsta farmi þegar búið verður að vinna síldina sem Bjarni Ólafsson kemur með á morgun. Þá ber að geta þess að síðustu daga hafa verið framkvæmdir um borð í Berki og því þurfti hann að gera hlé á veiðum. Bjarni Ólafsson er núna í sínum næstsíðasta túr á vertíðinni en Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur eiga samtals eftir að veiða um 6500 tonn,“sagði Jón Gunnar.