Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði aðfaranótt mánudagsins að lokinni veiðiferð og hófst löndun snemma í gærmorgun. Skipið var með fullfermi eða tæp 116 tonn og var aflinn til helminga þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið vel. „Við vorum tæpa fjóra sólarhringa að veiðum og má segja að aflinn hafi verið jafn og góður. Við vorum að mestu á Glettinganesflakinu en kíktum einnig á Tangaflakið,“ segir Þórhallur.
Gullver hélt á ný til veiða strax að löndun lokinni.