Nú hefur borist staðfesting frá skoðunarstofunni BSI á Íslandi þess efnis að jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar hafi staðist úttekt og uppfylli allar kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST:85 2012. Úttekt á launakerfi fyrirtækisins fór fram í desembermánuði sl. Fram hefur komið að Síldarvinnslan er fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á landinu til að hljóta jafnlaunavottun.
 
Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar segir ánægjulegt að formleg staðfesting á jafnlaunakerfi fyrirtækisins sé komin í hús og þar með liggi fyrir að fyrirtækið greiði konum og körlum sambærileg laun fyrir sambærileg störf. „Auðvitað áttum við ekki von á að úttektin sýndi kynbundinn launamun en glöggt er gests augað og því jákvætt að fá staðfest að við séum með þessi mál í góðu lagi. Nú tekur við stöðug vinna við að tryggja að fyrirtækið viðhaldi jafnlaunakerfinu og bæti það þannig að launastjórnunin verði í fullkomnu samræmi við jafnlaunastaðalinn. Í þessu sambandi ber að nefna að það er ekki aðeins framkvæmd jafnlaunaúttekt á fyrirtækinu í eitt skipti heldur verða framkvæmdar reglubundnar úttektir og þannig tryggt að árangurinn sem náðst hefur haldist,“ segir Hákon.