Þann 1. janúar sl. tók gildi breyting á jafnréttislögum sem kveður á um að fyrirtækjum og stofnunum sé skylt að sýna fram á að þau greiði jöfn laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Markmið þessarar lagabreytingar er að tryggja að óútskýrður munur á launum heyri sögunni til. Fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn eiga að hafa fengið launakerfi sitt vottað fyrir árslok og stendur undirbúningur fyrir vottunarferlið yfir hjá Síldarvinnslunni. Að sögn Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra felst talsverð vinna í undirbúningnum, en skjalfesta þarf öll ferli í tengslum við launamál og ákvarðanir launa og tryggja að þau séu nægilega skýr svo þau uppfylli skilyrði laganna. Að auki þurfa að liggja fyrir starfslýsingar fyrir öll störf hjá fyrirtækinu. „Umfangið á þessari vinnu er töluvert, en þarna er í öllum tilfellum um að ræða þætti sem borgar sig að hafa á hreinu og í góðu lagi,“ segir Hákon. „Þetta mun tryggja enn betur en áður að launamálin hjá fyrirtækinu séu faglega unnin og ekki leynist einhvers staðar launamunur sem má rekja til kyns eða annarra þátta sem koma kröfum til starfsins eða hæfni til að gegna því ekkert við. Stór hluti okkar starfsmanna fær auðvitað greidd laun samkvæmt kjarasamningum sem einfaldar málið en engu að síður er þetta nokkuð flókin vinna sem þarf að fara fram með tilkomu breytinganna á lögunum. Á sama tíma erum við svo að ganga frá ferlum og skjölum í tengslum við nýja persónuverndarlöggjöf, þannig að löggjafinn sér til þess að nógu er að sinna þessi misserin,“ segir Hákon að lokum.
Sigurður Ólafsson verkefnastjóri ásamt Hákoni starfsmannastjóra og Ragnhildi Tryggvadóttur launafulltrúa vinna að undirbúningi jafnlaunavottunarinnar.