Pólska uppsjávarskipið Janus hefur verið selt fiskeldisfyrirtæki í Mexíkó og verður ný heimahöfn skipsins Ensenada á Kyrrahafsströndinni. Siglingin til nýju heimahafnarinnar er um 7.000 sjómílur og má gera ráð fyrir hún taki rúmlega 26 daga. Þessi langa sigling verður rétt liðlega hálfnuð þegar komið verður í Panamaskurðinn.
Fyrirtækið sem festir kaup á Janusi heitir Baja Aqua-farms og var stofnað árið 2000. Á vegum fyrirtækisins er veiddur túnfiskur sem er áframalinn í kvíum upp í sláturstærð. Janusi er ætlað að gegna hlutverki fóðurskips en í honum verður fóðurfiskur geymdur í kælilestum sem síðan verður dælt í kvíarnar. Einnig er fyrirhugað að Janus leggi stund á veiðar í einhverjum mæli á ákveðnum tímum ársins.
Janus var áður í eigu Síldarvinnslunnar og bar lengst af nafnið Börkur og síðan Birtingur. Skipið var selt pólsku fyrirtæki árið 2016 og fékk þá nafnið Janus. Janus var gerður út til kolmunnaveiða vorið 2017 en þá um sumarið var skipinu síðan lagt og lá það bundið við bryggju á Seyðisfirði í tæplega eitt ár, en sumarið 2018 var það flutt til Reyðarfjarðar. Á Reyðarfirði lá það þar til nýverið, en þá var því siglt til Akureyrar þar sem Slippurinn sinnti ýmsum verkefnum áður en nýir eigendur taka við því og það hverfur endanlega úr landi. Janus liggur nú við bryggju á Akureyri og ekki er ljóst hvenær hann siglir á brott en Covid-19 veldur þar óvissu.
Hér verður saga þessa merka aflaskips rakin í örstuttu máli en það hlýtur að teljast eitt af merkari skipum sem verið hafa í eigu Síldarvinnslunnar.
Síldarvinnslan festi kaup á stóru uppsjávarskipi árið 1973 og fékk það nafnið Börkur. Skipið var 1000 lestir að stærð og efuðust margir í upphafi um að það myndi henta til loðnu- og kolmunnaveiða en tilgangurinn með kaupunum var fyrst og fremst að leggja stund á slíkar veiðar. Stærð skipsins gerði það að verkum að Norðfirðingar hófu fljótlega að kalla skipið Stóra-Börk.
Börkur var smíðaður í Noregi árið 1968 og hafði áður en Síldarvinnslan eignaðist hann verið í eigu norsks fyrirtækis. Skipið átti þá heimahöfn í Hamilton á Bermudaeyjum.
Vel gekk frá upphafi að veiða loðnu á Börk og hentaði skipið ágætlega til slíkra veiða. Sífellt urðu farmar skipsins stærri. Í fyrstu voru einungis 750 tonn sett í það en brátt færðu menn sig upp á skaftið og komu að landi með 900 tonna farm en það var þá stærsti farmur íslensks skips. Í næstu veiðiferð sló Börkur fyrra met og kom með 950 tonn. Að því kom síðan að farið var að setja 1.100 tonn í skipið og enn síðar 1.350 tonn.
Kolmunnaveiðar Barkar gengu ekki eins vel og loðnuveiðarnar en hann hélt í fyrsta sinn til veiða á kolmunna 8. maí 1973. Eftir tilraunina til kolmunnaveiða þetta fyrsta ár var hlé gert á þeim en á árunum 1976-1982 hélt Börkur ávallt til kolmunnaveiða að undanskildu árinu 1979. Öll árin var afli tregur auk þess sem verðlagningin á kolmunnanum var ekki til að hvetja til veiðanna.
Árum saman gekk erfiðlega að finna Berki nægjanleg verkefni og stóð reyndar til að selja skipið árið 1976 en ekki kom þó til þess. Ávallt var verkefna leitað og lagði Börkur til dæmis stund á síld- og makrílveiðar í Norðursjó fyrstu fjögur sumrin sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar. Síðla sumars 1975 var Börkur sendur til loðnuveiða í Barentshafi en fyrr um árið hafði hann veitt hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku. Þá má geta þess að um árabil var skipið nýtt til að sigla með ísvarinn fisk frá Neskaupstað til Grimsby yfir sumarmánuðina og til baka flutti hann ódýra olíu sem togarar Síldarvinnslunnar nýttu. Með tímanum jukust verkefni Barkar og að því kom að unnt var að halda honum til fiskjar á heimamiðum stærstan hluta ársins.
Fyrstu 25 árin sem skipið var í eigu Síldarvinnslunnar voru ekki miklar breytingar gerðar á því ef undan eru skilin vélaskipti árið 1979 en þá var sett í það öflugri vél. Í janúarmánuði 1998 kom Börkur hins vegar til heimahafnar frá Póllandi þar sem gagngerar breytingar höfðu verið framkvæmdar á skipinu. Það var lengt um tæplega 15 metra, settur á það bakki, perustefni, ný brú og allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Eins var allur spilbúnaður skipsins endurnýjaður, skipið sérstaklega útbúið til flotvörpuveiða og kælikerfi sett í lestar. Burðargetan að afloknum breytinginum var 1.800 tonn. Staðreyndin er sú að eftir breytingarnar var ekki ýkja mikið eftir af hinu upphaflega skipi. Árið 1999 hélt Börkur síðan í vélarskipti til Englands og þá var sett í hann 7.400 hestafla Caterpillar vél.
Árið 2012 festi Síldarvinnslan kaup á nýjum Berki og þá fékk gamli Börkur nafnið Birtingur. Bar hann það nafn þar til hann var seldur pólska fyrirtækinu eins og fyrr greinir árið 2016.
Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem Síldarvinnslan gerði hann út nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi fært jafn mikinn afla að landi.
Fyrsti skipstjórinn á Berki var Sigurjón Valdimarsson og stýrði hann skipinu allt til ársins 1981. Á árunum 1974-1976 var Hjörvar Valdimarsson einnig skipstjóri á móti Sigurjóni og á árunum 1976-1989 var Magni Kristjánsson skipstjóri, ásamt Sigurjóni framan af. Síðar áttu Jón Einar Jónsson, Helgi Valdimarsson, Sturla þórðarson, Sigurbergur Hauksson og fleiri eftir að setjast í skipstjórastólinn á Berki. Eftir að skipið fékk nafnið Janus var Atli Rúnar Eysteinsson skipstjóri á því um tíma.