Pólska uppsjávarveiðiskipið Janus (áður Birtingur/Börkur) í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonPólska uppsjávarveiðiskipið Janus (áður Birtingur/Börkur) í Norðfjarðarhöfn.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í gær kom pólska uppsjávarveiðiskipið Janus til Neskaupstaðar með 1.350 tonn af kolmunna. Janus var áður í eigu Síldarvinnslunnar og bar þá lengst af nafnið Börkur og síðan Birtingur. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1973 og gerði það út til ársins 2016 eða þangað til það var selt núverandi eiganda. Afli skipsins á þeim 43 árum sem það var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi.
 
Mörgum Norðfirðingum þótti vænt um að heyra á ný Caterpillar-hljóðið í skipinu þegar það sigldi inn Norðfjörð í gær. Tilfinningin var eins og að hitta gamlan vin á ný eftir nokkurn aðskilnað. Skipið lítur nákvæmlega eins út og þegar það var selt úr landi, meira að segja má sjá Síldarvinnslumerkið á stefni þess og skorsteini. Það eina sem breyst hefur er nafnið og einkennisstafirnir.
 
Skipstjóri á Janusi er Atli Rúnar Eysteinsson, ungur Norðfirðingur sem verið hefur 2. stýrimaður á Berki NK. Atli tók við skipstjórninni hinn 4. apríl og segir að kolmunnaveiðarnar hafi gengið vel frá þeim tíma. „Við megum veiða í írskri lögsögu en hins vegar takmarkað í þeirri færeysku. Frá því að ég kom um borð höfum við farið þrjá túra og fiskað um 4.000 tonn. Fyrir mig er það skemmtileg og dýrmæt reynsla að fást við þetta verkefni. Á Janusi er fínasta áhöfn. Uppistaðan í áhöfninni eru Rússar en við erum fjórir Íslendingar hér um borð. Auk mín er íslenskur vélstjóri og síðan Norðfirðingarnir Hjörvar Sigurjónsson Móritz og Örn Rósmann Kristjánsson sem gjörþekkja skipið frá þeim tíma þegar Síldarvinnslan átti það. Auðvitað er gaman að koma með farm hingað heim til Neskaupstaðar en áður hefur skipið landað kolmunnanum í Færeyjum, á Írlandi og reyndar einu sinni á Seyðisfirði,“ sgaði Atli Rúnar.