Japaninn Kusayanagi og Líneik Haraldsdóttir fylgjast með gæðum loðnunnar. Ljósm. Hákon ErnusonJapaninn Kusayanagi og Líneik Haraldsdóttir fylgjast með
gæðum loðnunnar. Ljósm. Hákon Ernuson
Seinni partinn í gær lauk vinnslu á loðnu úr Bjarna Ólafssyni AK í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en hluti af afla hans fór í frystingu á Japansmarkað. Í gær dúraði á loðnumiðunum fyrir sunnan land og fengu mörg skipanna góðan afla. Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.480 tonn og verður hluti aflans frystur á Japan. Börkur NK kemur síðan í kjölfar Vilhelms með 1.430 tonn og er einnig ætlunin að afli hans fari í Japansfrystingu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að þeir hafi fengið aflann í Skarðsfjörunni í fimm köstum. Hrognafylling loðnunnar sé 16-17% og hún ætti því að henta vel til Japansfrystingar. Telur Hjörvar að einhver möguleiki verði til veiða á morgun en annars sé veðurútlit slæmt við suðurströndina allavega fram á sunnudag.
 
Polar Amaroq skipaði frystri loðnu um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn í gær en hélt síðan til veiða norður fyrir land þar sem norski loðnuflotinn hefur haldið sig. Heimasíðan ræddi við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq í morgun en þá voru þeir Polarmenn með fyrsta kast á Skjálfanda. „ Við fundum loðnu strax og við komum hér og erum að draga núna. Það er eitthvað í þessu hjá okkur. Loðnan stendur djúpt en Norðmennirnir segja að hún komi upp á kvöldin. Mér líst bara vel á þetta en það var veðurútlitið sem gerði það að verkum að við fórum hingað norður fyrir land. Hér verður blíða á morgun og eftir morgundaginn hverfa norsku skipin á braut. Þá verðum við einir hér. Hrognafyllingin í loðnunni hérna er um 15% og það hentar okkur vel,“ sagði Geir.
 
Eins og fram kemur hjá Geir er einungis einn dagur eftir af þeim tíma sem Norðmenn mega stunda loðnuveiðar við landið. Eru allar líkur á því að þeir muni nánast ljúka við að veiða þann kvóta sem þeir hafa til ráðstöfunar á þeim tíma.