Birtingur NK á loðnumiðunum í gær. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBirtingur NK á loðnumiðunum í gær. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonNú er loðnan komin á hefðbundnar slóðir og góð veiði var á Lónsbugtinni í gær. Birtingur kastaði þrisvar og kom til löndunar í nótt með 1.400 tonn. Börkur náði tveimur köstum og var kominn með 700 tonn í gærkvöldi og Polar Amaroq fékk 700 tonn í þremur köstum. Nú er engin næturveiði en í morgun voru skipin byrjuð að kasta á ný. Það hefur færst bros yfir alla þá sem koma að veiðum og vinnslu á loðnu.

Í fiskiðjuverinu í Neskaupstað er verið að vinna loðnu úr Birtingi og er Japansfrysting hafin af fullum krafti. Að sögn Jóns Más Jónssonar framkvæmdastjóra landvinnslu hjá Síldarvinnslunni gengur frystingin ágætlega og flokkast loðnan afar vel. Kvenloðnan er fryst á Japan en stærsti karlinn á Rússland. Vinnsluskipið Hákon kastaði þrisvar á miðunum í gær og fékk samtals 500 tonn. Þar um borð er einnig Japansfrysting hafin.