Í gær kom Börkur NK með 1.500 tonn af loðnu til Neskaupstaðar. Þegar hófst frysting úr honum og er fryst á Japan. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að vinna úr Berki í kvöld. Beitir NK er á landleið til Neskaupstaðar með 1.900 tonn. Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, sagði að aflinn hefði fengist á tveimur dögum; fyrri daginn var kastað út af Alviðru og seinni daginn vestan við Portland. „Við fengum 800 tonna kast í gær og hrognafyllingin í þeirri loðnu er meiri en í fyrri köstunum en þá var hún um 18%,“ sagði Sturla.
Fulltrúar japanskra kaupenda eru í Neskaupstað og ræddi tíðindamaður heimasíðunnar við þá í gær. Þeir voru mjög ánægðir með loðnuna sem verið var að frysta úr Berki og sögðu að hún uppfyllti ágætlega þær kröfur sem þeir gerðu til hráefnisins. Vonast er til að loðnufrystingu á Japan verði haldið áfram í Neskaupstað fram yfir helgi en síðan má gera ráð fyrir að hrognavinnsla hefjist.