Fulltrúar japanskra kaupenda ásamt Nataliu Bednarz, starfsmanni í gæðaeftirliti, skoða hrognafyllingu loðnunnar. Ljósm. Smári Geirsson

Tíðindamaður heimasíðunnar hitti þrjá fulltrúa japanskra fyrirtækja í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, en fyrirtækin hafa lengi keypt bæði loðnu og loðnuhrogn á Íslandi. Þetta voru þeir Kusayanagi og Kurihara sem starfa hjá fyrirtækinu K&T og Mukai sem starfar hjá Osaka voichi. K&T er ekki stórt fyrirtæki og kaupir loðnu og loðnuhrogn af Síldarvinnslunni en Osaka voichi er hins vegar stórt fyrirtæki og á í viðskiptum við allmarga loðnuframleiðendur á landinu og selur loðnu til ýmissa Asíulanda.

Kusayanagi, sem venjulega er kallaður Kusa, hefur komið til Íslands á 29 loðnuvertíðir og Mukai hefur komið á 28 vertíðir. Kurihara er hins vegar yngri og er nú á sinni fimmtu vertíð. Þeim finnst gott að koma til Íslands og tala um að þeir líti nánast á hverja vertíð sem hátíð. “Þetta er annatími, en það er alltaf gott að koma og við eigum marga vini og félaga á Íslandi,” segir Kusa. Þá tala þeir um að gott sé að skipta um umhverfi og það sé mikill munur á heimaborgum þeirra í Japan og íslensku loðnubæjunum, en Kusa og Kurihara búa í Tokyo og Mukai í Osaka.

Hrognafyllingin er 16,6% og fulltrúar japönsku kaupendanna ánægðir. Ljósm. Smári Geirsson

Að þessu sinni komu Japanirnir til Neskaupstaðar í byrjun febrúar og hafa síðan fylgst með veiðunum og loðnunni sem komið hefur á land. “Við höfum verið hérna níu Japanir og þeir eru bæði starfsmenn fyrirtækja sem kaupa loðnu til Japan og eins fulltrúar viðskiptavina þessara fyrirtækja. Við bíðum alltaf spenntir eftir því að hrognahlutfallið nái 15% en það er lágmarkið fyrir Japansloðnuna. Þetta hlutfall náðist sl. laugardag þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom með tæplega 2.300 tonn til löndunar. Í farmi skipsins var úrvalsloðna sem flokkaðist afar vel og reyndist hrognafyllingin vera vel yfir 16%. Nú var Barði NK að koma með rúmlega 1.200 tonn og við eigum von á að hann sé með svipaða gæðaloðnu,” segir Kusa.

Þeim félögum líst afar vel á yfirstandandi loðnuvertíð. Þeir segja að allt sé jákvætt við vertíðina; mikið af loðnu sé á miðunum, veiðarnar gangi vel og loðnan sem veiðist sé afar góð. Þeir gera ráð fyrir að framleiðsla hrogna hefjist í byrjun marsmánaðar. “Þetta er nánast eins gott og það getur verið,” segja þeir einum rómi.

Fulltrúar japanskra kaupenda í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Talið frá vinstri Mukai , Kurihara og Kusayanagi. Ljósm. Smári Geirsson

Þeir segja jafnframt að ávallt sé beðið eftir nýrri loðnu á markað í Japan og það skipti miklu máli fyrir markaðinn að loðna sé veidd á hverju ári. Japanir vilja fá loðnuna til að steikja á pönnu eða til að djúpsteikja og loðnuhrognin eru fyrst og fremst notuð í sushi. Loðnan og hrognin er vinsæl matvara í Japan sem fólk vill ekki vera án. Það er ávallt slæmt fyrir markaðinn þegar koma loðnuleysisár því markaðurinn er viðkvæmur. “En við þurfum ekki að hafa áhyggjur núna því þessi vertíð verður ábyggilega mjög góð,” segja þeir félagar og brosa sínu breiðasta.