Á dögunum ræddi tíðindamaður heimasíðunnar við Jóhannes Pálsson í Skagen í Danmörku. Jóhannes starfaði hjá Síldarvinnslunni á árunum 2001-2008, fyrst sem framkvæmdastjóri landvinnslu en á árunum 2007-2008 sinnti hann einnig sölumálum og erlendri starfsemi fyrirtækisins. Árið 2008 lét Jóhannes af störfum hjá Síldarvinnslunni og réðst þá til Aker Seafoods í Noregi og hóf að gegna starfi framkvæmdastjóra framleiðslu. Jóhannes starfaði í Noregi til ársloka 2013 en í byrjun árs 2014 hóf hann störf sem framkvæmdastjóri FF Skagen í Danmörku. FF Skagen er rótgróið fyrirtæki sem stofnað var af sjö útgerðarmönnum í Skagen árið 1960 og hóf að reka fiskimjölsverksmiðju á staðnum.
Jóhannes segir að á ýmsu hafi gengið hjá FF í gegnum tíðina en nú sé fyrirtækið öflugt. „Árið 1970 var höfnin í Skagen stækkuð og í kjölfar þess, eða á árinu 1974, byggði FF nýja verksmiðju sem var miklu fullkomnari en sú sem fyrirtækið átti áður. Í kjölfar þess að nýja verksmiðjan var tekin í notkun festi FF kaup á annarri fiskimjölsverksmiðju í Skagen og frá þeim tíma hefur einungis ein verksmiðja verið rekin í bænum. Árið 1999 tók FF upp samstarf við sænska útgerðarmenn og þá hóf fyrirtækið að annast frystingu á brislingi í Svíþjóð. Félag sænsku útgerðarmannanna rak fiskimjölsverksmiðju sem var lögð niður árið 2005 og starfsemin sameinuð FF í Skagen. Þegar ég kom til starfa hjá FF var hafin vinna við að sameina FF og fyrirtækið sem rak fiskimjölsverksmiðjuna í Hanstholm. Sameiningin átti sér stað á árinu 2014 og eftir það reka einungis tvö fyrirtæki fiskimjölsverksmiðjur í Danmörku. Við hjá FF rekum verksmiðjurnar í Skagen og Hanstholm en annað fyrirtæki rekur verksmiðju í bænum Thyborøn. Þannig eru einungis þrjár slíkar verksmiðjur reknar í allri Danmörku. Í fyrra unnu þessar þrjár verksmiðjur úr um það bil einni milljón tonna af hráefni en til samanburðar unnu 11 verksmiðjur á Íslandi úr 660 þúsund tonnum,“ segir Jóhannes.
Á árunum 2015-2016 var öll verksmiðja FF í Skagen endurnýjuð og þar komið fyrir fullkomnasta búnaði sem völ var á. Um líkt leyti hóf FF að taka þátt í rekstri flutningafyrirtækis sem orðið hafði til við sameiningu nokkurra fyrirtækja á því sviði. Einnig hóf FF að sinna fjölþættari fiskvinnslustarfsemi en áður. „Árið 2015 festi FF ásamt sænskum samstarfsaðilum kaup á fyrirtæki í Svíþjóð sem saltar síld og tveimur árum síðar voru tvö fyrirtæki í Danmörku keypt sem einnig vinna síld til manneldis. Við þetta varð manneldisvinnsla mikilvægur þáttur starfseminnar. Hefur hún farið fram bæði í Svíþjóð og Danmörku og frá árinu 2017 undir merki Scandic Pelagic. Við allar þessar breytingar hefur FF tekið miklum breytingum og vaxið mjög. Veltan hefur tvöfaldast og starfsmannafjöldinn farið úr 150 í 500,“ segir Jóhannes.
Þegar Jóhannes er beðinn um að nefna tölur sem gefa til kynna umsvif FF stendur ekki á svari. „FF tók á móti 561 þúsundum tonnum af hráefni til mjöl- og lýsisframleiðslu á árinu 2018. Þá var tekið á móti 150 þúsund tonnum af síld til manneldisvinnslu sem framleidd var undir merki Scandic Pelagic. Heildarvelta fyrirtækisns á árinu 2018 nam 56 milljörðum íslenskra króna sem er allmikið. FF er semsagt orðið býsna stórt fyrirtæki og það er í nógu að snúast en eins og tengdamamma segir þá hefur vinna aldrei drepið nokkurn mann.“