Jólafrí framundan hjá Bergi VE og Vestmannaey VE. Ljósm. Arnar Berg Arnarsson

Bergur VE landaði í Vestmannaeyjum á gærmorgun og Vestmannaey VE í morgun. Þar með er síðustu veiðiferð beggja skipa fyrir jól lokið og jólafrí framundan hjá áhöfnum þeirra. Afli Bergs var 62 tonn og var hann mest þorskur en afli Vestmannaeyjar var 60 tonn, mest ýsa. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að í túrnum hafi verið norðaustan fræsingur. „Við byrjuðum út af Þorlákshöfn og þar fengum við aðeins af ýsu, en færðum okkur síðan austur á Ingólfshöfða og kláruðum þar. Nú er framundan pása fram yfir áramót og það eru allir glaðir og sælir með það,“ segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þeir hafi fiskað fyrir austan. „Við byrjuðum á Glettingi en færðum okkur svo suður á Gerpisflak og í Reyðarfjarðardýpið. Þarna vorum við í blíðuveðri allan tímann en það var hins vegar bræla fyrir sunnan okkur. Nú tekur við góð pása en það verður ekki farið út á ný fyrr en á nýju ári,“ segir Birgir Þór.