Haraldur Jörgensen með niðurskorna síld. Ljósm. Hákon Ernuson |
Jólasíld Síldarvinnslunnar er orðin ómissandi hluti jólahátíðarinnar hjá starfsmönnum og velunnurum fyrirtækisins. Að mati flestra sem hafa smakkað jólasíldina kemst engin önnur síld í hálfkvisti við hana. Það er Haraldur Jörgensen eða Halli Kalla Jör sem stjórnað hefur framleiðslu jólasíldarinnar um áratuga skeið og hefur hann notið aðstoðar reyndra manna á borð við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni ár hvert og einungis ætluð til að gleðja og seðja starfsmennina og þá sem eru í mestum tengslum við fyrirtækið.
Að sjálfsögðu eru þær aðferðir sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar leyndarmál en þó fékkst heimild til að greina í grófum dráttum frá framleiðsluferlinum. Allt byrjar þetta á því að gæðasíld er skorin í hæfilega bita en það er gert um 10. október ár hvert. Þegar skurði er lokið er síldin sett í kör með saltpækli og þar er hún höfð í um það bil einn sólarhring. Þá er hún tekin úr körunum og sett í tunnur þar sem hún liggur í ediki í ákveðinn tíma. Loks er hún látin liggja í sykurlegi og er magn sykursins algert lykilatriði varðandi það hvernig til tekst. Lokaþáttur framleiðsluferilsins felst í því að síldin er tekin úr sykurleginum og sett í fötur ásamt lauk og tilheyrandi kryddi. Þegar síldin hefur legið í fötunum í nokkra daga er hún tilbúin til neyslu.
Jólasíldin komin í fötur. Ljósm. Hákon Ernuson |
Allur þessi framleiðsluferill byggir á mikilli þekkingu og næmri tilfinningu. Allar tímasetningar skipta höfuðmáli og grundvallaratriði er síldin fái að liggja nægilega lengi í hverjum legi fyrir sig svo hið eina rétta jólabragð náist. Þegar kemur að lokastigum framleiðsluferilsins eru kallaðir til útvaldir menn til að smakka framleiðsluna og leggja dóm á hvernig til hefur tekist. Stundum eru gerðar viðbótarráðstafanir til að ná fram þeim eðalgæðum sem sóst er eftir.
Að undanförnu hefur verið lögð áhersla á að merkimiðinn á síldarfötunum sé með jólalegri mynd af athafnasvæði eða skipum Síldarvinnslunnar. Ef einhver á góða slíka mynd og er tilbúinn að leyfa notkun hennar á síldarfötur er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.