Jólalöndun hjá Blængi NK. Ljósm. Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærmorgun að lokinni 25 daga veiðiferð. Löndun hófst strax úr skipinu en aflinn er 565 tonn upp úr sjó að verðmæti 214 milljónir króna. Sigurður Hörður Kristjánsson skipstjóri segir að mest hafi verið fiskað austur af landinu. „Við fórum að vísu norður fyrir og vestur í Reykjafjarðarál en þar var stoppað stutt og haldið á ný austur. Eins fórum við suðurfyrir allt vestur að Kötlugrunni en það var sama sagan og aftur var haldið austur fyrir land. Aflinn er blandaður; ýsa, þorskur, ufsi, gulllax og grálúða. Fyrri part túrsins vorum við í ágætu veðri en veðrið var býsna risjótt seinni partinn. Yfirleitt var heldur rólegt yfir veiðinni en sumir dagar þó betri en aðrir. Staðreyndin er sú að í desember er oft ekkert sérstök veiði og miðað við það var túrinn bara þokkalegur og allir sáttir um borð. Ég held að áhöfnin sé mjög ánægð með að komast í jólafrí og við Blængsmenn óskum öllum gleðilegra jóla. Ráðgert er að Blængur haldi á ný til veiða 3. janúar,“ segir Sigurður Hörður.