Jólasíldin sett í fötur. Ljósm. Jón Gunnar Sigurjónsson

Fyrir marga sem starfa hjá Síldarvinnslunni eða tengjast fyrirtækinu er jólasíld Síldarvinnslunnar ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Í hugum flestra er Síldarvinnslujólasíldin besta síldin og mikið tilhlökkunarefni að fá að neyta hennar. Síldin er framleidd eftir kúnstarinnar reglum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og yfirverkstjórinn, Jón Gunnar Sigurjónsson, stýrir framleiðslunni.

Jón Gunnar segir að ávallt sé ánægjulegt að fá þakkir fyrir jólasíldina og ekkert fari á milli mála að framleiðslan í ár sé vel heppnuð. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni og er áhersla lögð á að hráefnið sé af bestu gæðum. Framleiðsluferillinn er að sjálfsögðu leyndarmál en hann byggir bæði á mikilli þekkingu og næmni. Jón Gunnar segir að það sé ávallt gaman að fást við framleiðslu á jólasíldinni. „Fólk segir í ár að síldin sé sú besta. Það höfum við heyrt áður og það sýnir að við erum alltaf á réttri leið. Ég tel að jólasíldin í ár sé algjört ljúfmeti og hún er í reynd lokapunkturinn á frábærlega vel heppnaðri síldarvertíð,“ segir Jón Gunnar. 

Fyrir utan þá jólsíld sem starfsfólk og velunnarar Síldarvinnslunnar hafa fengið hefur fyrirtækið sent Mæðrastyrksnefnd síld og mun hún örugglega vera vel metin á þeim vettvangi. Auk jólasíldar fékk Mæðrastyrksnefnd fisk að gjöf frá Síldarvinnslunni og eins var Samhjálp styrkt til matargjafa. Fyrir utan þetta hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til matargjafa í Neskaupstað og á Seyðisfirði.