Loðnuskipin komu öll til löndunnar um sl. helgi. Myndin er tekin á Seyðisfirði kl.11:00 á sunnudagsmorgun. Beitir NK er að landa loðnu og Börkur NK bíður löndunar úti á firði með 2.900 tonn. Ljósm. Ómar Bogason

Það líður að jólum. Öll loðnuskipin eru komin til hafnar og í gær var landað úr frystitogaranum Blængi að loknum Barentshafstúr. Gullver hefur verið í höfn á Seyðisfirði síðustu dagana en þar hefur gírinn í vél skipsins verið tekinn upp. Bergey VE kom til Vestmannaeyja í gær með rúmlega 60 tonna afla en skipið landaði 40 tonnum í Neskaupstað sl. fimmtudag. Bergeyjarmenn eru komnir í jólafrí. Vestmannaey VE er í Reykjavík og þar er unnið í vél skipsins eftir eldsvoðann sem upp kom í því í lok októbermánaðar. Um þessar mundir eru varahlutir í vélina að koma frá Japan og er gert ráð fyrir að Vestmannaey haldi á ný til veiða um mánaðamótin janúar-febrúar.

Vinnslu á loðnu mun ljúka í fiskimjölsverksmiðjunum í Neskaupstað og á Seyðisfirði fyrir jólin og vinnslu í frystihúsinu á Seyðisfirði mun væntanlega ljúka á morgun. Síldarvinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað lauk fyrr í mánuðinum.

Framundan eru gleðileg og góð jól hjá öllu starfsfólki Síldarvinnslunnar og tengdra fyrirtækja. Framundan er einnig spennandi ár og er þá risastór loðnuvertíð ofarlega á dagskránni.