Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðsifirði snemma í gærmorgun að aflokinni veiðiferð. Afli skipsins var 106 tonn og var hann blandaður, mest þorskur og karfi. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Við veiddum mest á Papagrunni en síðan var farið í karfaleit í Berufjarðarál og Lónsdýpi. Þá var haldið í Rósagarðinn og þar var karfakropp. Síðan var endað í Berufjarðarálnum. Í Rósagarðinum eru fornfræg karfamið en þar hefur lítið veiðst lengi. Ég hef til dæmis aldrei verið á skipi sem reynt hefur fyrir sér þar en fréttir af karfaveiði nýverið hafa leitt til þess að menn skoða málið. Það var fínasta veður í þessum túr en þó var þung alda í Rósagarðinum. Fiskurinn sem fékkst var afar góður og við fylltum öll kör um borð þannig að komið var að landi með fullfermi. Gullver mun halda á ný til veiða á föstudag og það verður síðasti túr fyrir verslunarmannahelgarstopp. Það mun verða tveggja vikna stopp,“ segir Hjálmar Ólafur.