Í morgun klukkan 9.30 hringdi Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar inn fyrstu kauphallarviðskiptin með hlutabréf Síldarvinnslunnar. Efnt var til athafnar um borð í Berki II NK í Norðfjarðarhöfn í tilefni af því að bréf fyrirtækisins voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Bjalla kauphallarinnar hafði verið flutt austur og hljómaði vel. Ljóst má vera að þessi dagur, 27. maí 2021, er tímamótadagur í sögu Síldarvinnslunnar.
Þegar bjöllunni hafði verið hringt bauð Magnús Harðarson forstjóri Nasdaq Iceland Síldarvinnsluna velkomna á Aðalmarkaðinn og síðan hélt Gunnþór B. Ingvason ræðu þar sem hann þakkaði starfsfólki Síldarvinnslunnar fyrir alla þá vinnu sem það hafði lagt fram við undirbúning þess að fyrirtækið færi á markað og jafnframt þakkaði hann Landsbankanum sem veitt hafði ráðgjöf við allt undirbúningsferlið og lögræðingum og endurskoðendum sem einnig höfðu komið að þeirri vinnu.
Heimasíðan ræddi stuttlega við Magnús Harðarson að lokinni athöfninni og spurði fyrst hvort það skipti máli fyrir kauphöllina að fá inn fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna. „Já, svo sannarlega. Síldarvinnslan er glæsilegt fyrirtæki með sterka stöðu og það er virkilegur fengur að því. Þá ber að nefna að Síldarvinnslan er eina fyrirtækið í kauphöllinni með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins og að því leyti markar skráning fyrirtækisins þáttaskil. Aðeins eitt fyrirtæki í sjávarútvegi var áður skráð á markaðinn og því er skráning Síldarvinnslunnar mikið gleðiefni. Verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja á markaðnum tvöfaldaðist með tilkomu Síldarvinnslunnar og því sjá allir að þessi skráning vegur þungt. Útboðið á bréfum Síldarvinnslunnar tókst eins og best verður á kosið; eftirspurnin var tvöföld, selt var fyrir um 30 milljarða og þegar upp var staðið voru hluthafar hátt í 7000 talsins. Það eru einungis þrjú fyrirtæki á markaðnum með fleiri hluthafa en Síldarvinnslan, en það eru Icelandair, Arion banki og Marel. Ég held að útboðið hafi sýnt að fólk hefur trú á íslenskum sjávarútvegi enda er atvinnugreinin einkar áhugaverð. Allir sem kynna sér greinina sjá að hún er afar framsækin; ný tækni hefur verið innleidd í ríkum mæli, mikil áhersla er lögð á umhverfismál og sjálfbærni og síðast en ekki síst þá leggja sjávarútvegsfyrirtæki eins og Síldarvinnslan áherslu á að lifa í sátt við það samfélag sem þau starfa í.
Síldarvinnslan var skráð á markaði á árunum 1994-2004 eins og allmörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki. Athyglivert er að þegar Síldarvinnslan var fyrst skráð árið 1994 var fyrirtækið metið á 1,7 milljarða að núvirði. Þegar útboðið fór fram á bréfum Síldarvinnslunnar á dögunum var fyrirtækið hins vegar metið á 102 milljarða. Á þessu sést að það hefur vel verið haldið á málum hjá fyrirtækinu frá því það hvarf af markaðnum 2004. Strax eftir að bjöllunni var hringt í morgun hófust viðskipti með bréf Síldarvinnslunnar. Á fyrsta korterinu áttu sér stað um 30 viðskipti og hafði gengið þá hækkað um 10% frá útboðsgenginu. Um hádegisbil höfðu síðan átt sér stað 93 viðskipti og það er mjög mikið.
Síldarvinnslan er kröftug og það sást glögglega á undirbúningsferli skráningarinnar. Það var tekin ákvörðun upp úr áramótum að skrá fyrirtækið og það er að gerast í dag. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með öllu þessu ferli og ég vil bjóða Síldarvinnsluna velkomna á markaðinn. Þessi dagur er ánægjudagur,“ segir Magnús.