IMG 0982 3

Nemendur og kennarar Sjávarútvegsskóla Austurlands í Neskaupstað. Ljósm: Sigurjón Mikael Jónuson

Kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands hófst í Neskaupstað sl. mánudag en kennsla á vegum skólans mun fara fram á sex stöðum á Austurlandi í sumar.

                Í Neskaupstað eru 17 nemendur í skólanum og eru þeir allir fæddir árið 2001. Í upphafi sóttu nemendur fyrirlestra um sögu útgerðar og fiskvinnslu ásamt því að fjallað var um núverandi stöðu sjávarútvegs og tækifæri greinarinnar í framtíðinni. Í kjölfarið var frætt um markaðs- og gæðamál og kynnt öll þau fjölbreytilegu störf sem unnin eru innan sjávarútvegsins. Til hliðar við fyrirlestrana hefur verið efnt til heimsókna um borð í fiskiskip og einnig í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og frystigeymslur fyrirtækisins. Framundan er stíf dagskrá en kennslunni í Neskaupstað mun ljúka á föstudag.

                Heimasíðan hitti tvo nemendur skólans að máli í gær en það voru þau María Bóel Guðmundsdóttir og Andri Snær Sigurjónsson. Þau voru sammála um að skólinn væri bæði skemmtilegur og fróðlegur, einkum væri gaman að fara í heimsóknir um borð í skip og á vinnustaði. „Við fórum um borð í Börk og Birting og skoðuðum fiskiðjuverið og frystigeymslurnar. Síðan verður farið í heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands á morgun og fræðst um hvernig unnt er að mennta sig til starfa í sjávarútvegi. Það hefur komið okkur mjög á óvart hve störfin eru fjölbreytt og ólík. Á morgun heimsækjum við einnig Matís og fræðumst um rannsóknir á fiski og mjöli og fleiru. Á föstudag förum við síðan í ferðalag til Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar og heimsækjum fiskimjölsverksmiðju Eskju og netagerðina Egersund á Eskifirði og hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Þetta verður örugglega skemmtileg ferð. Það er margt sem hefur verið fjallað um í skólanum og komið okkur á óvart. Til dæmis hve sjávarútvegur er  að skapa mikil verðmæti og hve markaðir fyrir vörurnar eru fjölbreytilegir. Það var mjög gaman að fá fyrirlestur um markaðsmál og fræðast um það hvernig fiskurinn er matreiddur með allt öðrum hætti en við eigum að venjast. Við viljum hvetja alla krakka á Austurlandi sem fæddir eru 2001 til að skrá sig í skólann. Það ætti enginn að sjá eftir því. Svo eru líka kennararnir nokkuð skemmtilegir og það skemmir ekki fyrir,“ sögðu þau María Bóel og Andri Snær.

                Að sögn forsvarsmanna skólans, þeirra Sigurðar Steins Einarssonar og Sylvíu Kolbrár Hákonardóttur, hefur skólinn farið frábærlega af stað og nemendur í Neskaupstað verið mjög áhugasamir. Segjast þau hlakka til að kenna á öðrum stöðum á Austurlandi og vilja skora á unglinga sem fæddir eru á árinu 2001 að skrá sig í skólann. Skráning fer fram á www.sjavarskoli.net.