Sl. mánudag var haldið í Neskaupstað námskeið fyrir kokka og matráða Síldarvinnslunnar þar sem næringarfræðingurinn og Norðfirðingurinn Berglind Lilja Guðlaugsdóttir fór yfir grunnatriði í næringarfræði og ýmsar leiðir til að gera máltíðir og matarumhverfi heilsusamlegra bæði til sjós og lands. Farið var yfir val á hráefnum, eldunaraðferðum og skipulagi í kringum máltíðir og innkaup. Berglind er klínískur næringarfræðingur, dokstorsnemi og aðjúnkt við Háskóla Íslands og hefur mikla reynslu í slíku námskeiðahaldi.
„Þetta var frábært námskeið“, segir Haraldur Egilsson, kokkur á Berki NK. „Það er gott að fá upprifjun á næringarfræðinni og Berglind notaði mjög sniðugar aðferðir til að benda okkur á leiðir til að auka hollustuna á einfaldan hátt. Við vorum mjög ánægð með þetta og fengum fullt af hugmyndum sem verður gaman að vinna með“, segir Haraldur.
Annað námskeið verður haldið í dag, miðvikudaginn 26. október, og eru þeir sem hafa fengið boð hvattir til að mæta. Í næstu viku verða svo netfyrirlestrar þar sem öllu starfsfólki Síldarvinnslunnar býðst fræðsla um næringu og leiðir til að bæta mataræði.