Vilhelm Þorsteinsson EA kemur til löndunar í Neskaupstað sl. miðvikudag. Aflinn var 2.685 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Ljósm. Guðlaugur B. Birgisson

Beitir NK og Börkur NK komu til Neskaupstaðar með kolmunna til löndunar sl. þriðjudag. Beitir var með 900 tonn og Börkur með 700, en aflinn fékkst í íslensku lögsögunni. Á miðvikudaginn kom síðan Vilhelm Þorsteinsson EA til löndunar í Neskaupstað. Hann hafði verið að veiðum í færeysku lögsögunni og var afli hans 2.685 tonn. Vilhelm er systurskip nýja Barkar og var þetta í fyrsta sinn sem hann landar hér á landi. Áhöfn Vilhelms var í sóttkví um borð og annaðist hún því löndunina.

Að sögn Grétars Arnar Sigfinnssonar rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar er nú unnið að því að gera Síldarvinnsluskipin klár fyrir makrílvertíð. Segja má að Beitir og Börkur séu tilbúnir að halda til veiða. Bjarni Ólafsson AK er hins vegar í slipp á Akureyri og ætti hann að geta haldið til veiða um þarnæstu helgi. Polar Amaroq er einnig í slipp í Hafnarfirði og mun hann vart verða tilbúinn fyrr en um komandi mánaðamót.

Gera menn sér vonir um að makríllinn fari brátt að sýna sig í íslenskri lögsögu en þau skip sem skimað hafa eftir honum að undanförnu hafa ekki orðið hans vör.