Börkur NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í gær. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í gær. Ljósm. Hákon ErnusonKolmunna hefur verið landað síðustu daga í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Hákon EA kom með um 1200 tonn til Seyðisfjarðar á mánudagskvöld og hófst vinnsla þá. Vilhelm Þorsteinsson EA kom síðan til Seyðisfjarðar með 2400 tonn í gær. Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 2500 tonn en Beitir kom til löndunar með fullfermi á mánudag.
 
Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóri á Seyðisfirði sagði í samtali við heimasíðuna að menn væru ánægðir með að kolmunnavertíðin væri hafin og vonandi gengju veiðar vel. Fyrir verksmiðjuna á Seyðisfirði væri kolmunnavertíðin mikilvæg og það væri svo sannarlega gott að fá góðan kolmunnaafla til vinnslu í kjölfar góðrar loðnuvertíðar. Á Seyðisfirði var tekið á móti rúmlega 36 þúsund tonnum af loðnu á nýliðinni vertíð en engin loðna barst þangað á vertíðinni 2014.
 
Birtingur NK hóf kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni fyrir þremur dögum og spurði heimasíðan Steinþór Hálfdanarson skipstjóra frétta. „Því miður hefur veiðin ekki verið góð þessa þrjá daga og auk þess höfum við átt í dálitlu brasi með veiðarfæri,“ sagði Steinþór. „Við erum komnir með 300 tonn og það er ekki mikið að sjá. Veiðin var miklu betri fyrstu dagana eftir að hún hófst. Það er mikill fjöldi af skipum að veiðum syðst í færeysku lögsögunni og flotinn er dreifðari en áður. Rússarnir hafa haldið sig austar en íslensku og norsku skipin en nú hafa einhver skip fært sig til þeirra. Eitt og eitt skip hefur fengið þokkalegt hol þannig að þetta er hittingur en flest skipin hafa verið að fá lítið. Við reiknum með að þetta muni lagast. Fiskurinn er að ganga inn í lögsöguna og hann kemur fyrr eða síðar í því magni sem þarf. Við erum bjartsýnir eins og alltaf,“ sagði Steinþór að lokum.