Borkur des 2018 HFBörkur NK kom með 2100 tonn af kolmunna í gær. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonOBörkur NK kom með 2100 tonn af kolmunna í gær.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Börkur NK kom með 2.100 tonn af kolmunna af Færeyjamiðum til Neskaupstaðar síðdegis í gær og seint í gærkvöldi kom Bjarni Ólafsson AK með 1.600 tonn. Leifur Þormóðsson stýrimaður á Berki segir að veiðiferð skipsins hafi tekið eina tólf daga. „Það var ekki mikil veiði og bölvaðar brælur sem trufluðu veiðarnar. Aflinn fékkst í einum níu holum og yfirleitt var dregið í um það bil sólarhring,“ segir Leifur. Börkur hélt á ný til veiða klukkan fimm í morgun.
 
Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni segir að veiðiferð skipsins hafi tekið níu daga en aflinn hafi fengist um 80 mílur austur af Færeyjum. „Einn dagurinn fór eingöngu í leit en aflinn fékkst í sex holum. Yfirleitt var dregið í um og yfir 20 tíma og fiskurinn gefur sig nánast eingöngu í myrkrinu. Á miðunum hefur verið slæmt veður og mikill straumur og almennt slæmar aðstæður til veiða. Við munum fara í jólafrí að löndun lokinni,“ segir Runólfur.