Bjarni Ólafsson AK leitar nú að kolmunna. Ljósm. Hákon Ernuson

Mánudaginn 21. þessa mánaðar hélt Bjarni Ólafsson AK frá Neskaupstað til kolmunnaleitar austur af landinu. Heimasíðan hafði samband við Runólf Runólfsson skipstjóra í morgun og spurði frétta. „Af okkur er heldur lítið að frétta. Við höfum leitað allvíða, byrjuðum í Rósagarðinum og Hvalbakshalli en enduðum út af Héraðsflóa þar sem við erum búnir að fá um 350 tonn og erum að toga núna. Veðrið hefur verið að trufla okkur og það var bullandi bræla í gær og í fyrradag. Það er kolmunni hér með köntunum og það er stór fiskur en hann er afar dreifður og erfitt að ná einhverjum veiðiárangri. Við erum að toga núna en þetta er eins og hefur verið; lítið að sjá,“ segir Runólfur. Gert er ráð fyrir að Bjarni Ólafsson komi til löndunar í Neskaupstað að loknum veiðum í dag.