600 tonna kolmunnahol hjá Berki NK. Ljósm. Atli Rúnar Eysteinsson600 tonna kolmunnahol hjá Berki NK. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonSegja má að fínasta kolmunnaveiði hafi verið í færeysku lögsögunni síðustu dagana og hefur mikill afli borist til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Að vísu er núna bræla á miðunum og skipin ekki að veiðum.
 
Beitir NK landaði rúmlega 2900 tonnum í Neskaupstað aðfaranótt föstudags og hélt til veiða strax að löndun lokinni. Skipið kom á miðin seint á laugardag og fékk strax 600 tonna hol eftir að hafa togað í 18 tíma. Í kjölfarið fengust síðan 240 tonn eftir 5 tíma en þá skall brælan á.
 
Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með um 2300 tonn sem fengust í fimm holum.
 
Bjarni Ólafsson AK landaði 1600 tonnum á Seyðisfirði sl. föstudag og í nótt landaði Vilhelm Þorsteinsson EA rúmlega 2100 tonnum þar. Í kjölfar Vilhelms kom Hákon EA og er hann að landa um 1300 tonnum.
 
Það eru annir hjá starfsmönnum fiskimjölsverksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði um þessar mundir. Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að kolmunninn sem nú berst að landi sé hið þokkalegasta hráefni og vinnsla á honum gangi mjög vel.