Íslensku kolmunnaskipin láta reka á gráa svæðinu suður af Færeyjum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÍslensku kolmunnaskipin láta reka á gráa svæðinu suður af Færeyjum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonHeimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti NK, í dag og spurðist frétta af kolmunnaveiðum. Tómas sagði að heldur lítið væri að frétta en beðið væri eftir því að kolmunninn gengi úr skoskri lögsögu inn á hið svonefnda gráa svæði suður af Færeyjum. „Hér eru öll skip á reki. Ég held að hér á hinu svonefnda gráa svæði séu 14 íslensk skip og hér er einnig grænlenska skipið Polar Amaroq og allmargir Rússar. Færeysku skipin voru hér en ég held að þau séu farin í land. Skipin eru alldreifð, en það er ekkert að gerast. Það gætu verið einhverjir dagar í að kolmunninn gangi inn á svæðið en það hafa borist fréttir af fínustu veiði innan skoskrar lögsögu. Menn bíða semsagt eftir því að fiskurinn gangi norðureftir en hér hefur gjarnan verið byrjuð veiði um þetta leyti. Staðreyndin er sú að þetta kemur mönnum ekkert rosalega á óvart. Það getur verið breytilegt frá ári til árs hvenær fiskurinn kemur á þessar slóðir. Menn eru bara rólegir, fylgjast með og bíða. Það er bara ekkert annað að gera í stöðunni,“ segir Tómas.