Í Norðfjarðarhöfn liggja kolmunnaskip og er þess beðið að kolmunninn gangi inn í færeyska lögsögu svo veiðar geti hafist þar. Skipin veiddu í alþjóðasjó vestur af Írlandi í febrúar- og marsmánuði en þegar kolmunninn gekk inn í Evrópusambandslögsögu var gert hlé á veiðunum. Í fyrra hófust veiðar í færeysku lögsögunni snemma í aprílmánuði og var kolmunna sem þar veiddist fyrst landað á Seyðisfirði og í Neskaupstað 12. og 13. apríl. Veiðarnar í færeysku lögsögunni í fyrra fóru afar vel af stað og var mikið af fiski að sjá. Nú er beðið kolmunnafrétta úr lögsögunni við Færeyjar og eru kolmunnaskipin í Norðfjarðarhöfn í startholunum.