Polar Princess og Polar Amoroq partrolla í grænlenskri lögsögu síðasta sumar. Ljósm. Jan Torur JoensenPolar Princess og Polar Amoroq partrolla í grænlenskri
lögsögu síðasta sumar. Ljósm. Jan Torur Joensen
Kolmunnaskipin héldu til veiða eftir sjómannadagshelgina en árangurinn varð lítill og undir lok vikunnar komu þau til hafnar. Í Neskaupstað liggja nú Börkur NK, Beitir NK, Margrét EA, Bjarni Ólafsson AK og grænlenska skipið Polar Amaroq. Skipin munu hafa leitað í Rósagarðinum en afar lítið fundið og því þótti ráðlegast að gera hlé á veiðunum. Gert er ráð fyrir að íslensku skipin haldi á ný til leitar eftir einhvern tíma. Einu skipin sem eru á miðunum nú eru Venus NS, Víkingur AK og Guðrún Þorkelsdóttir SU.
 
Polar Amaroq landaði slatta af kolmunna í Neskaupstað sl. laugardag og að sögn Geirs Zoëga skipstjóra er nú verið að undirbúa skipið til veiða á makríl og síld í grænlenskri lögsögu. „Við gerum ráð fyrir að halda til veiða upp úr 20. júní. Við munum partrolla með Polar Princess eins og við höfum gert þrjú síðustu sumur. Í fyrra fengum við tæplega 15.000 tonn af makríl og síld. Ég geri ráð fyrir að við byrjum á að veiða makríl því síldin er seinna á ferðinni vegna hafíss og sjávarkulda,“ segir Geir.