Beitir NK með 600 tonna hol á síðunni. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK með 600 tonna hol á síðunni.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Fyrir og um nýliðna helgi var mokveiði hjá kolmunnaskipunum í færeysku lögsögunni. Skipin voru gjarnan að fylla sig á einum sólarhring eða svo og þurfti að hægja á veiðunum vegna þess að kolmunninn er viðkvæmt hráefni. Fiskurinn er kældur um borð í skipunum en hann geymist ekki vel eftir löndun. Burðargeta þeirra skipa sem landa hjá Síldarvinnslunni er um 12.800 tonn en samanlögð afkastageta verksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði er 2.500 tonn á sólarhring. Kolmunninn er þess eðlis að afar mikilvægt er að stilla saman veiðar og vinnslu á honum.
 
Bæði Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri á Seyðisfirði og Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri í Neskaupstað segja að vinnslan á kolmunnanum gangi mjög vel, en mikilvægt sé að hráefnið sé unnið sem fyrst eftir löndun. Á Seyðisfirði landaði Beitir NK 3.000 tonnum á mánudaginn en á undan honum lönduðu Margrét EA 2.100 tonnum og Vilhelm Þorsteinsson EA 2.100 tonnum. Í Neskaupstað er Vilhelm Þorsteinsson EA að landa 2.100 tonnum en á undan honum lönduðu Börkur NK 2.330 tonnum og Bjarni Ólafsson AK 1.830 tonnum.