Beitir NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÞað gengur á ýmsu á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi. Kolmunninn heldur sig við botninn yfir daginn en kemur eitthvað upp á nóttunni og misjafnt er hvað veiðiskipin toga lengi hverju sinni. Um klukkan tvö í dag var Börkur að dæla um 200 tonnum eftir að hafa togað í sjö klukkustundir og var skipið þá komið með um 1300 tonna afla. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra hafði áhöfnin átt í tímabundnu brasi með veiðarfærið en veður var þokkalegt. Að vísu myndi bræla eitthvað í dag en það veður myndi ganga fljótt yfir. Börkur hífði 300 tonn í gærdag og síðan 150 tonn eftir að hafa togað í tvo og hálfan tíma.

Beitir var að toga skammt frá Berki og upplýsti Tómas Kárason skipstjóri að þeir væru komnir með um 900 tonna afla. „Það er allur flotinn hérna á sama blettinum í botnskaki og sumir hafa fest trollin í karga og skemmt þau. Hérna er töluvert lóð en þetta er klesst niður við botn eins og er. Við höfum verið að toga misjafnlega lengi en algengt er að togað sé í 5-8 tíma“, sagði Tómas.