Verið var að gera uppsjávarskip Síldarvinnslunnar klár til kolmunnaveiða í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar munu halda til kolmunnaveiða í nótt og á morgun. Beitir NK og Börkur NK láta úr höfn í nótt en Barði NK á morgun. Það verður nóg að gera við kolmunnaveiðar hjá skipunum á árinu en alls er þeim heimilt að veiða um 78.000 tonn. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði hvar veiðarnar myndu hefjast. „Við munum hefja veiðar austur af Færeyjum en það eru um það bil 340 mílur þangað. Við erum semsagt rúman sólarhring að koma okkur á þessi mið. Færeyingarnir eru að fiska þarna núna og miðað við fréttir eru þeir að gera það gott,“ segir Tómas.