Kolmunnaskipin Beitir NK og Börkur NK lönduðu í Fuglafirði í Færeyjum í gær en liggja nú í landi vegna brælu. Beitir landaði um 400 tonnum og Börkur rúmlega 500 tonnum. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Berki og spurði hvernig veiðarnar hefðu gengið eftir áramótin. „Við og Beitir fórum út 6. janúar en við höfum einungis getað verið að veiðum í um það bil sólarhring. Það er stanslaus helvítis ótíð. Við vorum að fiska á Gráa svæðinu svokallaða um 100 mílur suðaustur af Færeyjum. Aflinn var í góðu lagi þennan stutta tíma sem við gátum verið að, en hann fékkst í tveimur holum. Við liggjum núna í Fuglafirði en Beitir liggur í Runavík því það var ekki bryggjupláss fyrir hann hér. Í sannleika sagt er veðurútlitið ekki gott, en það hlýtur að koma að því að hann lægi,“ segir Hálfdan.