Hákon EA að landa kolmunna í Neskaupstað í morgun. Ljósm. Smári GeirssonHákon EA að landa kolmunna í Neskaupstað í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Kolmunnaskipið Hákon EA kom til Neskaupstaðar sl. nótt. Skipið var með rúm 500 tonn sem landað var í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar og 400 tonn fryst að auki. Tvö kolmunnaskip til viðbótar eru á leið til Neskaupstaðar; Margrét EA er væntanleg í kvöld með 1.300 tonn og Bjarni Ólafsson AK lagði af stað af miðunum í gær einnig með 1.300 tonn.
 
Beitir NK og Börkur NK eru að veiðum og það er Polar Amaroq einnig. Beitir var kominn með 915 tonn í morgun og Polar Amaroq með um 1.100 tonn. Heimasíðan hafði samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki og spurði hann út í veiðarnar. „Við erum að toga sunnan við Rockall-grunnið og nú eru hjá okkur 644 mílur í Norðfjarðarhorn. Við höfum fært okkur norðar að undanförnu en fiskurinn er að ganga í norður eða norðaustur. Við erum komnir með 1.662 tonn í sjö holum. Hér er endalaus ótíð. Við getum tekið eitt og eitt hol en síðan þarf bara að halda sjó. Aflinn fer sífellt minnkandi en við erum búnir að vera að frá því mánudaginn 9. mars í þessari veiðiferð. Það líður því brátt að því að haldið verði heim til löndunar. Ég geri frekar ráð fyrir því að nú verði gert hlé á kolmunnaveiðunum en síðan haldið til veiða á ný á gráa svæðinu suður af Færeyjum fljótlega eftir mánaðamót,“ segir Hálfdan.