Beitir NK að landa kolmunna á Seyðisfirði í morgun og Barði NK kominn til hafnar. Ljósm. Ómar Bogason

Nú er komin bræla á kolmunnamiðunum í Rósagarðinum og fóru skipin í land vegna hennar. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1.460 tonnum í Neskaupstað og í kjölfar hans mun Börkur NK landa 1.385 tonnum. Beitir NK er að landa 1.470 tonnum á Seyðisfirði og síðan mun Barði NK landa þar 1.205 tonnum.

Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson, skipstjóra á Barða, og spurði út í veðrið og veiðina. „Það var komið skítaveður og haugasjór. Það var ekkert annað að gera en að fara í land og losa sig við þann afla sem kominn var. Allir átta bátarnir sem voru þarna að veiðum fóru í land. Við erum með rúm 1.200 tonn og fékkst aflinn í fimm holum á fjórum dögum. Það dró heldur úr veiðinni undir lokin. Það ætti að vera komið fínasta veður á laugardag og þá höldum við bara áfram,“ segir Þorkell.