Beitir NK kemur með kolmunnafarm til hafnar í Neskaupstað sl. föstudag. Ljósm. Guðlaugur Björn BirgissonBeitir NK kemur með kolmunnafarm til hafnar í Neskaupstað sl. föstudag. Ljósm. Guðlaugur Björn BirgissonKolmunnaskipin komu með afla til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar um nýliðna helgi. Beitir NK kom til Neskaupstaðar með rúmlega 2.900 tonn sl. föstudag og Hákon EA kom þangað með 1.600 tonn og fulla frystilest sl. laugardag. Í gær kom síðan Margrét EA til Seyðisfjarðar með 1.770 tonn. Það hefur gengið mjög vel að vinna kolmunnann í fiskimjölsverksmiðjunum.
 
Miðað við síðustu ár hefur kolmunnaveiðin gengið heldur erfiðlega að undanförnu. Tíðarfarið hefur verið erfitt og trufluðu brælur mjög veiðarnar fram eftir árinu. Þá gekk kolmunninn seinna inn á gráa svæðið suður af Færeyjum en hann hefur gert síðustu ár. Einnig má nefna að mikill fjöldi skipa er að eltast við kolmunnann og vissulega hefur það áhrif.
 
Að undanförnu hafa skipin verið að toga lengi og hefur aflinn verið misjafn. Ekki er óalgengt að aflinn hafi verið 200-300 tonn eftir að togað hefur verið í 17-20 tíma. Það er því þolinmæðisverk að fylla skipin.
 
Gert er ráð fyrir að kolmunnaveiðum verði haldið áfram fram í júní eða fram að makrílvertíð.