Beitir NK tekur veiðifærin um borð og heldur til kolmunnaveiða síðar í dag. Ljósm. Smári Geirsson
Bjarni Ólafsson AK í slipp Færeyjum. Verið er að gera klárt fyrir kolmunnavertíð. Ljósm. Grétar Örn Sigfinnsson

Börkur NK hélt frá Neskaupstað til kolmunnaveiða sl. sunnudag. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun og spurðist frétta. „Það er ekkert að frétta ennþá. Við erum í Fuglafirði í Færeyjum og vorum að taka hér hlera auk þess sem verið er að sinna smá lagfæringum hér um borð. Það hefur verið veiði suður af gráa svæðinu svonefnda en fiskurinn virðist ekki hafa gengið inn á gráa svæðið ennþá að neinu ráði. Það eru nokkrir Rússar og tveir Færeyingar á gráa svæðinu en þeir hafa lítið fengið ennþá. Menn bíða eftir að fiskurinn gangi norður eftir af krafti. Við vorum byrjaðir að veiða á gráa svæðinu um þetta leyti í fyrra en hann er eitthvað seinna á ferðinni í ár. Nú eru flestir Færeyingarnir að tygja sig til veiða og íslensku skipin eru einnig að koma. Það verður myndarlegur floti þarna eftir nokkra daga tilbúinn að taka á móti fiskinum þegar hann sýnir sig“, segir Hjörvar.

Beitir NK mun væntanlega halda til kolmunnaveiða í dag en Bjarni Ólafsson AK er ennþá í slipp í Færeyjum og Barði NK í slipp á Akureyri.