Sl. sunnudagskvöld héldu Beitir NK og Börkur NK til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Bjarni Ólafsson AK sigldi síðan í kjölfar þeirra á þriðjudag. Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar, skipstjóra á Beiti, og innti hann frétta af kolmunnamiðunum. „Við vorum rúmlega sólarhring að sigla á miðin suðaustur af Færeyjum. Við tókum einungis tvö hol en síðan skall á bræla og við liggjum nú í höfn í Kollafirði. Það er í reynd alveg vitlaust veður og kolmunnaskipin hafa öll leitað hafnar eða liggja í vari. Við erum komnir með rúmlega 600 tonn. Í fyrra holinu lentum við í smá óhappi með trollið og það gaf einungis 65 tonn en í síðara holinu fengum við 550 tonn. Börkur er kominn með svipaðan afla og við en Bjarni Ólafsson kom eiginlega beint í bræluna. Þetta veður á ekki að ganga almennilega niður fyrr en á laugardag og þá verður haldið til veiða á ný,“ sagði Tómas.