Bjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað í gær og Börkur í nótt. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni að því tilefni. „Jú, við erum að byrja á kolmunnanum og það verður ærið verkefni fyrir íslensk skip því kvótinn er stór. Það er æðislegt að hafa svona verkefni að lokinni góðri loðnuvertíð. Við munum koma við í Færeyjum og taka troll en síðan verður haldið á miðin vestur af Írlandi. Það er tveggja og hálfs sólahrings sigling á miðin, þetta eru 650 mílur. Íslensku skipin eru gjarnan að búa sig á þessar veiðar eða leggja af stað en Vilhelm Þorsteinsson EA er kominn á miðin. Þarna eru helst færeysk og rússnesk skip að veiðum núna. Mér skilst að veiðin hafi verið ágæt að undanförnu, dálítið köflótt en heilt yfir ágæt,“ sagði Runólfur.
Gert er ráð fyrir að Beitir NK haldi til kolmunnaveiða í kvöld.