Beitir NK hélt til kolmunnaveiða í gær.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonUppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, héldu til kolmunnaveiða í gærkvöldi. Í gærdag komu Birtingur og Polar Amaroq til Neskaupstaðar eftir að hafa leitað loðnu án árangurs dögum saman. Polar Amaroq mun væntanlega einnig halda til kolmunnaveiða um helgina en Birtingi verður lagt að sinni.

Kolmunninn veiðist nú á hafsvæðinu vestur af Írlandi þannig að skipin eru um tvo og hálfan sólarhring að sigla á miðin. Vel veiddist á þessum slóðum en að undanförnu hefur veðurhamur truflað veiðarnar.

Útgefinn kolmunnakvóti Síldarvinnslunnar er um 40 þúsund tonn og líkur eru á að hann verði aukinn. Uppsjávarskipa fyrirtækisins  bíða því ærin verkefni á næstunni.