Beitir NK kemur með 3.053 tonn af kolmunna til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kemur með 3.053 tonn af kolmunna til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonKolmunnaveiðarnar í færeysku lögsögunni hafa gengið afar vel til þessa. Skipin ná fullfermi á skömmum tíma og framleiðsla úr hráefninu hefur gengið vel hjá fiskimjölsverksmiðjunum. Síldarvinnsluskipin, Börkur og Beitir, hafa hvort um sig fiskað um 17.000 tonn og eiga bæði eftir að landa einu sinni enn þegar þetta er skrifað. Önnur skip sem landað hafa í verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa einnig gert það gott á kolmunnanum en það eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og Bjarni Ólafsson AK.
 
Beitir kom til Neskaupstaðar í gær með 3053 tonn og Hákon landaði þar 1300 tonnum sl. mánudag og Vilhelm Þorsteinsson tæplega 1900 tonnum sl. þriðjudag. Börkur landaði síðan 2380 tonnum á Seyðisfirði sl. þriðjudag.