Borkur mai 2018 HFOBörkur NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonKolmunnaskipin Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK héldu til kolmunnaleitar sl. föstudag. Þau leituðu í um það bil sólarhring en köstuðu síðan á Þórsbankanum. Leifur Þormóðsson, stýrimaður á Berki, segir að árangur hafi verið umfram væntingar. „Við byrjuðum á að draga í í 10 tíma og fengum 215 tonn. Síðan var dregið í 20 tíma og þá fengust rúmlega 260 tonn. Þriðja holið skilaði síðan ágætu þannig að það eru tæp 900 tonn komin um borð. Þetta er fínasti kolmunni hvað stærð varðar og það er alger blíða á miðunum, stillt veður og þoka,“ segir Leifur.
 
Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, tekur undir með Leifi og segir að það sé afar mikilvægt að kolmunninn veiðist innan íslenskrar lögsögu. „Við erum búnir að taka tvö hol og fengum um 300 tonn í hvoru. Það er allt í lagi með þessi aflabrögð og vonandi verður framhald á þessu. Kolmunninn er í litlum blettum og þegar menn hitta á þá fæst eitthvað í veiðarfærið,“ segir Runólfur.
 
Samkvæmt nýjustu upplýsingum var heldur léleg veiði í nótt, en kolmunninn mun helst þétta sig á daginn. Það fjölgar skipum á Þórsbankanum en Margrét EA kom í gær og skipin sem voru að veiðum í Smugunni munu vera á leiðinni.