Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar sl. nótt með tæplega 1.800 tonn af kolmunna. Það tók fjóra sólarhringa að fá í skipið en um síðustu mánaðamót, þegar veiðin var hvað mest, tók það um einn og hálfan sólarhring. Runólfur Runólfsson skipstjóri segir að þetta þurfi ekki að koma á óvart. „Kolmunnaveiði hefur alltaf verið köflótt og það hefur dregið mjög úr veiðinni síðustu dagana. Í þessum túr fengum við aflann í sex holum, stysta holið var sjö tímar en það lengsta átján tímar. Reynslan af kolmunnaveiðunum segir manni að veiðarnar geti glæðst á ný fyrirvaralítið. Við vorum núna að veiða austan við Færeyjabanka í svonefndu Ræsi, en í morgun sá ég að skipin voru farin að veiða við Múkkagrunn. Fyrstu tvo dagana í túrnum var leiðindaveður en síðan batnaði það. Vandamálið var hins vegar ofboðslegur straumur sem er á þessum slóðum og hann gerði okkur mjög erfitt fyrir. Ég er viss um að kolmunninn á eftir að ganga inn í íslenska lögsögu með minnkandi straumi og þar á eftir að verða veiði. Það skiptir miklu máli að veitt sé í okkar lögsögu,“ sagði Runólfur.