Þegar kolmunnaveiðiskipin héldu út eftir sjómannadag hófu þau veiðar á Þórsbanka en hafa síðan fært sig austur úr Þórsbankanum og eru við veiðar út við miðlínu. Í fyrstu var aflinn heldur tregur en hann hefur verið að glæðast og seinni partinn í gær voru skipin gjarnan að hífa 300-500 tonn. Beitir hífði 350 tonn síðdegis í gær og Börkur um 400 tonn. Minni veiði var í nótt en þó var Börkur að hífa 320 tonn nú skömmu fyrir hádegi.
Ísfisktogarinn Bjartur hélt til veiða eftir sjómannadag og landaði um 40 tonnum af þorski á þriðjudagskvöld eftir rúman sólarhring að veiðum. Hann verður aftur í landi í dag með svipaðan afla. Frystitogarinn Barði er að hefja veiðar á úthafskarfa.