Beitir NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags með rúmlega 3.000 tonn af kolmunna eða fullfermi. Heimasíðan ræddi við Sigurð Valgeir Jóhannesson skipstjóra og spurði fyrst hvort menn væru ekki sáttir við veiðina. “Jú, það er ekki annað hægt. Hún er eins og best gerist. Það eru öll skip að fiska og menn brosa sínu breiðasta. Íslensku skipin eru gjarnan að landa einum fullfermistúr í viku og það er eiginlega ekki hægt að biðja um neitt betra. Veiðin fer fram á gráa svæðinu í færeysku lögsögunni og það er nánast ekki hægt að kvarta undan neinu. Veður hefur verið gott, ekkert veiðarfærahafarí og aflinn jafn og góður. Í þessum túr byrjuðum við á að taka eitt stutt 250 tonna hol en síðan var aflinn tekinn í 500 tonna holum og það var dregið frá fjórum og upp í átta tíma. Veiðin fer fram á stóru svæði þannig að það er vel rúmt á miðunum. Það munar miklu að nú eru rússnesk skip ekki að veiðum á gráa svæðinu en þau mega ekki vera þar samkvæmt nýjum samningi við Færeyinga. Ef Rússarnir mættu veiða þarna væru þeir með 15 stóra togara og það munar um minna. Það er full ástæða að ítreka það að veðrið hefur verið hagstætt að undanförnu og veðurútlit er býsna gott. Það er vor í lofti”, segir Sigurður.
Von er á Hákoni EA með fullfermi af kolmunna til Seyðisfjarðar í dag og þá eru Barði NK og Vilhelm Þorsteinsson EA að fylla á miðunum. Það er ljóst að framundan eru næg verkefni hjá fiskimjölsverksmiðjunum í Neskaupstað og á Seyðisfirði.